Greining á flogaveiki

Leiki grunur á að maður hafi fengið flog er mikilvægt að rannsaka það nákvæmlega.
Margir fá eitt flog einhvertíma á ævinni án þess að það sé flogaveiki en ef þau verða fleiri en eitt er mikilvægt að kanna hvort um flogaveiki geti verið að ræða.

Flogaveiki er tilkomin vegna endurtekinnar skammvinnar truflunar í rafboðum heilans sem geta haft í för með sér eftirfarandi afleiðingar:

  • Röskun á meðvitund eða vitund
  • Breytingar á hreyfingu líkamans, skynjun eða ástandi
Oftast er viðkomandi ómeðvitaður um hvað í raun gerðist. Af þeim sökum er mjög mikilvægt að muna og tengja nákvæmlega saman alla atburði í tengslum við flogið og gerð þess. Upplýsingar sjónarvotta eru læknum mjög mikilvægar og geta stundum verið einu upplýsingarnar sem greiningin byggir á.

Hann féll til jarðar og byrjaði að hristast og kippast til óstjórnlega, virtist eiga í erfiðleikum með að anda og varð fölur og þvalur. Eftir um það bil tvær mínútur hættu kippirnir og hann komst til meðvitundar en var aðeins ruglaður. Fyrir flogið var hann að gera það sem hann er vanur að gera en skyndilega hjóðaði hann upp og flogið byrjaði.

Þegar læknir fær þessar upplýsingar vakna fjölmargar spurningar:
  • Fékk viðkomandi raunverulega flog eða er einhver önnur skýring á því sem gerðist?
  • Tengist flogið truflun á starfsemi heilans eða eru einhverjar aðrar orsakir?
  • Er þetta örugglega fyrsta flog eða hefur eitthvað svipað gerst áður?
Ef læknirinn er sannfærður um að þetta sé raunverulega flog (en hægt er að rugla mörgu öðru saman við flog) þá er spurt:
  • Er um að ræða einhverjar þekktar orsakir innan heilans, s.s. æxli sem er hægt að meðhöndla sérstaklega?
Til að finna svör getur viðkomandi þurft að fara í ýmsar rannsóknir. Þær eru til að hjálpa við að staðfesta greiningu og líka til að kanna hvort einhverjar þekktar orsakir valda flogunum.

Rannsóknirnar gefa ekki alltaf til kynna að um flogaveiki sé að ræða. Skoðun læknisins og sjúkrasaga viðkomandi hjálpa þar til. Það er ekki óeðlilegt að ekkert finnist við rannsókn en greiningin verði samt flogaveiki.

Blóðprufa er tekin til að skoða almennt heilbrigði og hjálpar til við að útiloka óeðlilega starfsemi í líkamanum sem gæti orsakað flogin.

Tölvusneiðmyndataka og segulómun (CT og MRI) af heila geta hjálpað til við að greina breytingar í heila sem hugsanlega orsaka flog. En hjá mörgum kemur ekkert fram sem skýrt geti hvað orsakaði flog.

Heilalínurit (EEG) mælir rafspennubreytingar í heilaberki. Rafskaut eru fest í hársvörð sjúklings á ákveðinn hátt. Boðin eru mögnuð upp og skráð með sérstökum pennum á pappír. Rannsóknin er sársaukalaus og tekur um 30 mínútur. Hafa ber í huga að heilalínurit gefur einungis upplýsingar um rafspennubreytingar í heilanum á því tímabili sem upptakan á sér stað. Því er heilalínurit einungis marktækt ef dæmigerðar truflanir sjást á meðan á upptöku stendur. Eðlilegt heilalínurit útilokar því ekki möguleikann á flogaveiki. Stundum er þörf á langtíma upptöku. Sjúklingur er þá tengdur við tæki sem hann getur borið á sér. Boðin frá rafskautum í hársverði eru skráð á snældu. Skráningin getur tekið marga daga og sjúklingur getur sinnt sínum daglegu störfum á meðan.