Hitakrampar

Allt að eitt af hverjum 20 börnum fær hitakrampa á aldrinum 0 til fjögurra ára af völdum sótthita (t.d. vegna hálsbólgu) vegna þess hve óþroskaður heilinn er. Hitakrampar gera mjög sjaldan vart við sig eftir fjögurra ára aldur.

Hvað er átt við með orðinu hitakrampar?

Kramparnir koma í tengslum við sótthita, ekki síst þegar hitinn rís hratt upp að og yfir 38° C.

Hvað gerist?

Algengast er að krampar geri vart við sig í öllum vöðvum líkamans og að þeim fylgi meðvitundarleysi. Stundum stífnar barnið upp og fær taktvissa rykki í einstaka líkamshluta. Það ranghvolfir jafnvel augunum, froða myndast í munnviki og svæðið umhverfis varir verður bláleitt. Öndun getur virst mjög grunn. Sum missa þvag. Kramparnir vara í þrjár til fjórar mínútur og yfirleitt eru börnin fljót að jafna sig.

Fær barn hitakrampa oftar en einu sinni? 

Mörg börn fá hitakrampa aðeins einu sinni en önnur oftar í tengslum við sótthita og veikindi.

Á að kalla á lækni?

Mikilvægt er að læknir staðfesti sem fyrst orsakir sótthitans. Ef hitakrampinn varir lengur en fjórar mínútur eða ef barnið fær marga hitakrampa í röð þarf að sækja lækni án tafar.

Hvernig hjálpar er þörf?

Mikilvægt er að koma í veg fyrir að sótthitinn hækki enn frekar. Afklæddu barnið og nuddaðu það með svampi með volgu (ekki köldu) vatni. Notaðu blævæng eða annað til að blása köldu lofti að barninu. Láttu barnið liggja á hliðinni það gerir öndun auðveldari. Barnið gæti verið ringlað eftir krampann og þá þarf að hughreysta það. Ræddu við barnið allan tímann því heyrnin er fyrsta skynfærið til að jafna sig.

Er lyfjagjöf nauðsynleg?

Hætta er á að barn sem hefur fengið hitakrampa fái hann aftur við áþekkar aðstæður. Þess vegna gæti læknir tekið ákvörðun um að gefa barninu fyrirbyggjandi lyf þar til það er orðið eldra til að draga úr áhættu. Mælt er með að gefa lyf sem slær á hitann við fyrstu ummerki um sótthita.

Eru hitakrampar flogaveiki?

Yfirleitt eru hitakrampar ekki flokkaðir sem flogaveiki. Flest börn sem fá hitakrampa verða aldrei aftur vör við flog eða krampa eftir fjögurra ára aldur. Þó er hætta á að börn sem hafa oft fengið hitakrampa eða þeir verið langvarandi geti fengið áunna flogaveiki. Þess vegna ber ætíð að beita meðferð við hitakrömpum umsvifalaust.

Eru hitakrampar arfgengir?

Tilhneiging til að fá hitakrampa getur verið arfgeng.

Eru allir krampar í ungbörnum hitakrampar? 

Stundum fá börn krampa af öðrum ástæðum en sótthita. Leitaðu alltaf til læknis til að fá rétta greiningu.

Hvernig á að bregðast við barni með hitakrampa?

  • Haltu ró þinni, kældu barnið, leggðu það á hliðina, hughreystu það og leitaðu læknis.
  • Hafðu góðan og auðlæsilegan hitamæli innan seilingar heima hjá þér auk lyfja sem óhætt er að gefa börnum til að draga úr sótthita.
  • Leitaðu læknis ef þú hefur áhyggjur.
  • Klæddu ekki barn með sótthita í hlý föt, vefðu það ekki í teppi og notaðu ekki hitapoka.
  • Flestir hitakrampar ganga hratt yfir og valda ekki langvarandi vanda.