Horfur

Horfur eru mismunandi eftir því hverjar orsakir flogaveikinnar eru. Þannig eru horfur mjög góðar við sum heilkenni í börnum en afar slæmar við önnur.
Almennt má segja að um 15% einstaklinga með flogaveiki svari illa lyfjameðferð og hafi því slæmar horfur.
Horfur eru verri ef þekkt skemmd er í heila og eins ef um aðrar þroskatruflanir í heila er að ræða. Um það bil 60% einstaklinga með flogaveiki svara vel lyfjameðferð með einu flogaveikilyfi. Skurðaðgerðir hafa breytt horfum hjá einstaklingum með staðbundin flog og líkur er á að um 60-65% þeirra læknist af flogaveikinni við aðgerð,
þar sem upptökusvæði floganna er fjarlægt. En hafa ber í huga að einungis lítill hluti einstaklinga með flogaveiki er með flogaveiki sem hægt er að beita skurðaðgerð við.
Viss batatilhneiging verður með árunum og venjulega er auðvelt að stilla flog hjá eldri einstaklingum.