Köst barna undir fimm ára aldri

Allt að eitt af hverjum 20 börnum fær einhvers konar flog eða kast snemma á ævinni, flest eru stutt og auðvelt að bregðast við þeim. Þau geta öll leitt til meðvitundarleysis eða ástands sem minnir á það. Mikilvægt er að barninu finnist það ekki vera útilokað eða einangrað frá því sem jafnaldrarnir aðhafast. En hvaða köst eru þetta og hvernig er best að bregðast við þeim?

Flog

Þegar börn fá endurtekin flog er sagt að þau séu flogaveik. Orsakirnar geta verið margvíslegar og gerð flogana fer eftir því hvar í heilanum truflunin á sér stað. Ef hún á sér stað í öllum heilanum, fær barnið altækt flog. Stundum er truflunin einungis á ákveðnu svæði eða svæðum (staðbundin flog). Í flestum tilfellum er eina ráðið að tryggja öryggi barnsins og hughreysta það blíðlega þegar kast er afstaðið.

Hitakrampar

Ef ungt barn fær kast af völdum sótthita kallast það hitakrampi. Mikilvægt er að reyna að lækka hitann og kæla barnið. Um helmingur þeirra barna sem fær hitakrampa fær hann aftur við áþekkar aðstæður.

Yfirlið

Stundum er flogum og yfirliði ruglað saman. Fyrsta einkenni yfirliðs er oft ógleði eða óstyrkleiki í fótum án fyrirboða. Handleggir og fætur eru nær alltaf hreyfingarlausir í yfirliði og barnið bítur hvorki í tungu né vætir sig. Ástæða yfirliðs er yfirleitt minnkað blóðstreymi til heilans. Rétt viðbrögð eru að láta barnið setjast með höfuðið milli fóta eða leggja það á gólfið með fætur hærra en höfuðið. Losa skal um föt við háls, brjóst og mitti til að tryggja eðlilega blóðrás og öndun. Gættu þess að barnið fái nægt ferskt loft, hjálpaðu því í sæti og hughreystu það.

Andarteppa

Barn í uppnámi (á aldrinum 1-2ja ára) getur haldið niðri í sér andanum eftir grátkast. Sum börn gráta mjög ákaft og grípa ósjálfrátt andann á lofti. Eftir fáeinar sekúndur fer barnið að blána vegna skorts á súrefni, fellur fyrirvaralaust í gólfið og missir meðvitund. Stundum koma stakir kippir eða líkaminn stífnar. Barnið er fljótt að ná sér og verður brátt eins og ekkert hafi í skorist. Ekki er hægt að koma í veg fyrir þannig köst, þau hverfa með aldrinum.

Sefasýki

Yfirleitt er um að ræða viðbrögð við einhverju sem veldur geðshræringu eða streitu. Þau koma nær alltaf í viðurvist annarra. Kastið getur vakið óhug hjá viðstöddum og er notað til þess að fá samúð og athygli. Kastið getur lýst sér sem tímabundin hegðunartruflun með leikrænum ópum og hrópum, barnið baðar út handleggjum eða fótum, veltir sér í gólfinu, rífur í föt sín og hár. Stundum fylgir oföndun (hyperventilation). Barnið getur orðið ófært um að hreyfa sig eða hreyfir sig á undarlegan hátt. Yfirleitt vinna börnin sjálfum sér ekki mein í svona kasti. Hjálpið þeim að jafna sig með því að hugga þau blíðlega en ákveðið. Beittu barnið ekki hörku né löðrungaðu það. Láttu það hafa eitthvert verkefni sem allra fyrst og fylgstu með hegðun þess svo að lítið beri á.

Niðurstaða

Við fyrsta kast þarf alltaf að leita til læknis til að fá frekari greiningu. Ástæðulaust er að mikla fyrir sér köstin, þótt þau virðist óhugnanleg.