Krampakast & ráðvilluflog

Hvernig á að bregðast við?

Lærið fyrstu hjálp. Einnig er gagnlegt að skrá, ef það er mögulegt, hvað gerist meðan flogið stendur yfir. Venja sig á að líta á klukkuna um leið og flogið byrjar og veita því athygli hvernig barnið hagar sér þegar það kemur aftur til sjálfs síns. Skrifið niður á hvaða tíma dagsins flogið var og hvað barnið var að gera rétt fyrir flogið. Skráið allt óeðlilegt sem gerðist rétt áður en það byrjaði. Ef þetta hjómar sem hálf kuldaleg aðferð til að fást við flog mundu þá að margir foreldrar segja að með því að gera þetta finni þeir síður til hjálparleysis í baráttunni við flogaveikina og finnst þeir frekar hafa stjórn á ástandinu. Líklegt er að læknirinn sjái barnið ekki í flogi þau verða nær aldrei á læknastofu og því eru sjónarvottar bestu heimildarmennirnir sem hægt er að fá.

Vari krampaflogið lengur en fimm mínútur hringið þá á sjúkrabíl eða farið með barnið á neyðarvakt. Það er til ástand sem læknar kalla flogafár eða viðvarandi krampar og er það eitt af fáum tilfellum flogaveiki sem krefst neyðarráðstafana og skilyrðislausrar lyfjameðferðar. Fimm mínútna krampaflog er ekki flogafár. Sá tími sem það tekur að fara með barnið út í bíl og af stað upp á spítala er trúlega 15-20 mínútur. Stöðvist flogið á leiðinni er að öllum líkindum óhætt að fara aftur heim. En sé barnið enn í krampaflogi þegar komið er á neyðarvaktina hefur líklega liðið rúmur hálftími og þú þakkar fyrir að hafa ekki beðið lengur með að koma barninu til læknis.

Að fást við ráðvilluflog felst aðallega í því að halda hættulegum hlutum frá barninu og sjá til þess að það skaði sig ekki. En eitt ber þó að varast, reynið ekki að stöðva eða halda aftur af barninu (nema til að fyrirbyggja að það fari sér að voða). Sé haldið aftur af einstaklingi í ráðvilluflogi getur hann án þess að gera sér grein fyrir því slegið þann sem það reynir og meitt annað hvort sig eða aðra.

Munið að allar athafnir barnsins meðan á floginu stendur eru ómeðvitaðar. Barninu á aldrei að refsa eða láta það finna til sektarkenndar vegna einhvers sem það gerði meðan það var í flogi. Eldri börn verða oft leið ef þau missa þvag eða hægðir í floginu. Útskýrið fyrir þeim að þetta sé bara hluti af floginu og hafðu alltaf hrein föt tiltæk. Hægt er að nota vatnsþéttar nærbuxur til að hlífa barninu við niðurlægingu ef það fær flog í skólanum. Einnig er hægt að biðja kennarann að hafa dýnu, teppi og þvottapoka sem hægt er að nota í skólastofunni. Þá er teppið breytt yfir barnið og því leyft að jafna sig. Ef óhapp verður er hægt að bregðast við því án þess að allir bekkjafélagarnir verði vitni að því.

Þegar flogið er liðið hjá þarf barnið á huggun og hjálp að halda. Ekki spyrja barnið sífellt hvort því líði betur. Það er ósköp eðlilegt að sýna umhyggju en ef barnið verður vart við áhyggjur þínar af flogunum verður það líka áhyggjufullt og missir trú á sjálfu sér.