Fulltrúar frá LAUF verða með fræðslu um flogaveiki í Egilsstaðaskóla miðvikudaginn 11.sept

1. Kl. 15-16,30: Fræðslufundur fyrir starfsfólk skóla, leikskóla, frístundaheimila, íþróttafélaga, sambýla, félagsþjónustu og annarra stofnana og fyrirtækja sem þjónusta íbúa svæðisins.

2. Kl. 16,30-17,30: Opið hús fyrir almenning; fólk með flogaveiki, aðstandendur og allt áhugafólk. Fulltrúar félagsins verða til viðtals.

Lesa meira

Opið hús 2.sept

Á opna húsinu þann 2.sept næstkomandi ætlum við að vera í salnum okkar í Hátúni 10 og Guðrún Ósk Maríasdóttir, næringarfræðingur, ætlar að ræða við okkur um mat, mataræði og mikilvægi góðrar næringar. Kaffiveitingar

kl. 19,30-21

Félagsmenn fjölmennið og takið með ykkur gesti

Kv. Stjórnin

Lesa meira

Ráðgjafaviðtöl

Gunnhildur Axelsdóttir, fjölskylduráðgjafi, hefur aftur hafið störf eftir sumarfrí.

Allir sem eru félagsmenn hjá LAUFinu geta fengið ráðgjafarviðtöl fyrir sig og sína aðstandendur hjá Gunnhildi, sér að kostnaðarlausu.

Hafið samband við skrifstofu LAUF, lauf@vortex.is , eða beint við Gunnhildi, gunnhildur@vinun.is , til að bóka tíma.

ATH! til þess að fá viðtalið ókeypis er nauðsynlegt að vera félagsmaður hjá LAUF.

Lesa meira

Lög Félagsins

1. grein

Heiti, heimili, tilgangur:

Nafn félagsins er LAUF – Félag flogaveikra. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík og starfssvæðið er allt landið.

2. grein

Tilgangur félagsins er m.a.:

Fræðsla og upplýsingamiðlun til félagsmanna, almennings og opinberra aðila um flogaveiki.

Að bæta félagslega stöðu fólks með flogaveiki og aðstandenda þeirra.

Að styðja við rannsóknir á flogaveiki.

3. grein

LAUF – Félag flogaveikra var stofnað 31. mars 1984.

4. grein

Félagsmenn

Félagar geta orðið allir þeir sem styðja tilgang félagsins.

5. grein

Félagsgjald

Félagsgjald skal ákvarðað á aðalfundi félagsins ár hvert. Elli- og örorkulífeyrisþegar greiða hálft gjald óski þeir þess.

6. grein

Deildir sem stofnaðar eru innan félagsins skulu í samráði við aðalstjórn hafa ráðstöfunarrétt yfir því fé sem aflað er með eigin fjáröflun. Að öðru leyti er fjárhagur ekki sjálfstæður. Deildir geta sótt um fjárstyrki til aðalstjórnar LAUFS.

7. grein

Aðalfundur.

Æðsta vald í málefnum félagsins er í höndum aðalfundar, hann skal haldinn fyrir apríllok ár hvert. Skal til hans boðað skriflega með minnst viku fyrirvara, ásamt tilgreindri dagskrá. Einnig skal birta tilkynningu í fjölmiðlum með þriggja daga fyrirvara hið skemmsta. Aðalfundur er því aðeins löglegur að til hans sé boðað eins og fyrr greinir, án tillits til þess hversu margir félagsmenn eru mættir. Atkvæðisrétt á aðalfundi eiga aðeins fullgildir félagsmenn.

Dagskrá aðalfundar skal vera:

Lesin fundargerð síðasta aðalfundar.

Skýrsla stjórnar flutt.

Skýrslur deilda félagsins skulu lagðar fram.

Reikningar lagðir fram til samþykkis. Reikningsár félagsins miðast við áramót. Gjaldkeri skal gera lauslega grein fyrir fjárhagsstöðu félagsins frá áramótum fram að aðalfundi.

Lagabreytingar: Lögum félagsins verður ekki breytt nema á aðalfundi og séu að minnsta kosti 2/3 fundarmanna samþykkir breytingunni. Tillögum um lagabreytingar skal sérstaklega getið í fundarboði til aðalfundar og efni þeirra lýst.

Félagsgjald er ákveðið fyrir eitt ár í senn.

Kosið í stjórn félagsins eftir þeim reglum er um það gilda.

Kosið í nefndir.

Kosinn skoðunarmaður ásamt varamanni.

Önnur mál.

8. grein

Stjórn

Stjórn félagsins skipa fimm menn í aðalstjórn og þrír varamenn: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Kjörtímabilið er tvö ár.

Formaður ásamt tveimur stjórnarmönnum skal kosinn til tveggja ára í senn og ári síðar tveir stjórnarmenn til tveggja ára. Sama regla gildir um

varamenn. Stjórnin skiptir með sér verkum.

Auk venjulegra stjórnarstarfa er stjórn m.a. falið eftirfarandi:

Boðað skal til félagsfunda eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Stjórn er skylt að boða til félagsfundar ef að minnsta kosti 15 félagsmenn krefjast þess skriflega.

Yfirstjórn fjármála er í höndum stjórnar félagsins.

9. grein

Réttindi og skyldur félagsmanna.

a. Félagsmanni er ekki heimilt að taka að sér verkefni í nafni félagsins nema með samþykki stjórnar.

b. Heimilt er að fella félagsmenn úr félagaskrá hafi þeir ekki greitt félagsgjald til félagsins í tvö ár og ekki sótt um niðurfellingu.

c. Óski félagsmaður eftir því að ganga úr félaginu þarf hann að gera það skriflega.

d. Meirihluti stjórnar hefur rétt til þess að víkja félaga úr félaginu enda séu gild rök fyrir brottvikningu. Skjóta má málinu til aðalfundar sé þess krafist.

10. grein

Til þess að leggja félagið niður þarf samþykki tveggja aðalfunda, með að minnsta kosti 2/3 greiddra atkvæða á hvorum fundi. Verði félagið lagt niður, skal eignum þess ráðstafað í þágu fólks með flogaveiki, samkvæmt ákvörðun seinni aðalfundar.

Með samþykki þessarra laga falla þegar úr gildi eldri lög félagsins.

Samþykkt á aðalfundi félagsins í Reykjavík 29.apríl 2014.