Lyfjameðferð

Almennt er reynt að meðhöndla flogaveiki með einu flogalyfi en stundum verður að prófa nokkur lyf áður en besta lyfið finnst. Í sumum tilvikum þarf að meðhöndla flogin með eins háum lyfjaskömmtum og þolast. Oftast er byrjað á litlum skammti af einu lyfi og skammturinn smám saman aukinn. Þegar lyfjameðferð er hætt er lyfjaskammtur smám saman lækkaður og loks hætt við lyfjagjöfina. Val á lyfi ræðst af ástæðu flogaveikinnar. Þannig eru nokkur lyf frekar notuð við staðbundinni flogaveiki en önnur við altækri flogaveiki. Þótt almennt sé reynt að nota aðeins eitt lyf í senn þarf stundum að beita meðferð með tveimur eða fleiri lyfjum til að stilla flogin eins vel og kostur er á.

Ýmis flogaveikilyf

Til eru fjölmörg lyf sem notuð eru við flogaveiki. Ýmist er notast við efnaheiti lyfjanna eða markaðsheiti. Má þar nefna:

Efnafræðiheiti Markaðsheiti
Carbamazepine Tegretol, Tegretol Retard
Clonazepam Rivotril
Diazepam Stesolid, Stesolid Novum
Eslicarbazepine

Zebinix
Fenytóín Fenantoin Recip, Pro-Epanutin
Gabapentin Neurontoin
Lacosamide Vimpat
Lamotrigine Lamictal
Leviriracetam Keppra, Matever, Zelta
Oxacarbazepine Trileptal
Perampanel Fycompa
Phenobarbital Fenemal Meda
Pregabalin Lyrica, Brieka
Rufinamide Inovelon
Topiramate Topimax
Valpróinsýra Orfiril, Orfiril Retard
Vigabatrin Sabrilex
Zonisamide Zonergan
Ýmis óskrá lyf hérlendis Markaðsheiti
Clobazam Frisium
Ethosuximide Ethosuximide, Petnidan
Felbamate Taloxa
Piracetam Pirazetam mixtúra
Primidone Primidon
Retigabín Trobalt
Stiripentol Diacomit
Valpróinsýra Depakine mixtúra, Orfiril Lon

Oftast dugar að taka lyf tvisvar á dag og eru þau þá oftast tekin eftir máltíðir og fyrir svefn. Hafi menn verið einkennalausir á meðferð í 2-5 ár er oft reynt að draga úr lyfjaskömmtum yfir langan tíma, t.d. 3-6 mánuði, og hætta síðan lyfjagjöf í þeirri von, að flogaveikin sé læknuð. Gerð flogaveikinnar ræður því hvort hættandi sé á slíkt.

Aukaverkanir

Almennt er talað um að flogaveikin sjálf hafi skaðlegri áhrif en meðferðin sjálf, því talið er líklegt að há tíðni floga lækki krampaþröskuldinn og stuðli þannig að frekari flogum. Flest lyf hafa aukaverkanir og þetta á einnig við um flogalyf. Aukaverkanir lyfjanna geta verið margvíslegar, líkamlegar og geðrænar, skammvinnar og langvinnar. Þær eru m.a. sljóleiki, syfja, þreyta, svimi og aukin matarlyst auk breytinga á blóði og lifrarstarfsemi. Aukaverkanirnar eru mistíðar og misalvarlegar og tengjast að hluta blóðþéttni lyfjanna og niðurbrotsefnum þeirra. Húðútbrot og einkenni um ofnæmi eru gildar ástæður þess að skifta um lyf. Erfitt getur reynst að greina hvort sljóleiki og sein hugsun sé af völdum stöðugra flogavirkni í heila, sem truflar heilastarfsemina án þess að valda kasti, eða aukaverkana af lyfjameðferðinni. Sum flogaveikilyfjanna geta haft áhrif á fósturþroska og því er konum með flogaveiki endregið ráðlagt að skipuleggja barneignir sínar með góðum fyrirvara til þess að hægt sé að skipta um lyf þegar við á. Langflestar konur með flogaveiki eignast heilbrigð börn þrátt fyrir stöðuga lyfjameðferð á meðgöngu. Mikilvægt er að hafa í huga að áhrif lyfjameðferðarinnar og aukaverkanir lyfjanna eru mjög einstaklingsbundin.