Önnur meðferð
Örvandi þættir í umhverfinu
Hægt er að draga úr örvandi þáttum í umhverfinu svo sem með því að forðast blikkandi ljós og tölvuskjái hafi sjúklingar ljósnæma flogaveiki, gefa börnum sem hafa tilhneigingu til þess að fá hitakrampa hitalækkandi lyf, forðast að gefa fólki með flogaveiki lyf sem lækkar flogaþröskuld, ráðleggja nægan svefn og forðast óhóflega áfengisneyslu.
Vagustaugaraförvun (VNS™)
Tækið samanstendur af litlu boxi og leiðslu með gormi á öðrum endanum. Ígræðslan felur ekki í sér aðgerð á sjálfum heilanum, heldur er tækinu komið fyrir utan á brjóstkassa undir húðinni. Leiðslan er síðan þrædd upp í háls að vagustauginni sem liggur til heilans og er gormurinn settur utan um hana. Aðgerðin sjálf er tiltölulega einföld og tekur um tvo til þrjá klukkutíma. Raförvunin er síðan sett af stað og þá byrjar tækið að senda rafboð í gorminn á tauginni í ákveðinn tíma með ákveðnu millibili t.d. í hálfa mínútu og síðan hlé í fimm mínútur. Þessi hringrás endurtekur sig allan sólahringinn. Tækið gengur fyrir rafhlöðu sem endist í flestum tilvikum í fjögur ár. Tilgangurinn með taugaraförvun er að minnka tíðni staðbundina floga. Raförvun er ekki lækning og sjúklingar þurfa að fá fræðslu og upplýsingar um að áframhaldandi notkun flogalyfja sé nauðsynleg. Ein sérstakasta og mikilvægasti virkni tækisins er að sjúklingar geta sjálfir kveikt á raförvuninni hvenær sem þeim hentar. Þeir eru með segul á sér og þegar hann er settur yfir tækið slokknar á raförvuninni þar til segullinn er tekinn aftur af. Segullinn er notaður strax og sjúklingur verður var við að hann er að fá flog. Þetta er öryggistæki og er einnig notað ef raförvunin bilar eða skemmist. Ígræðsla getur haft aukaverkanir í för með sér en í flestum tilvikum eru þær vægar, s.s. áhrif á rödd, tungu eða háls. Í alvarlegustu tilvikum getur raförvunin haft áhrif á hjarta og maga. Vandalaust er að fjarlægja tækið ef aukaverkanirnar verða alvarlegar eða engin árangur næst með ígræðslu þess.