Fulltrúar frá LAUF verða með fræðslu um flogaveiki í Egilsstaðaskóla miðvikudaginn 11.sept

1. Kl. 15-16,30: Fræðslufundur fyrir starfsfólk skóla, leikskóla, frístundaheimila, íþróttafélaga, sambýla, félagsþjónustu og annarra stofnana og fyrirtækja sem þjónusta íbúa svæðisins.

2. Kl. 16,30-17,30: Opið hús fyrir almenning; fólk með flogaveiki, aðstandendur og allt áhugafólk. Fulltrúar félagsins verða til viðtals.

Lesa meira

Opið hús 2.sept

Á opna húsinu þann 2.sept næstkomandi ætlum við að vera í salnum okkar í Hátúni 10 og Guðrún Ósk Maríasdóttir, næringarfræðingur, ætlar að ræða við okkur um mat, mataræði og mikilvægi góðrar næringar. Kaffiveitingar

kl. 19,30-21

Félagsmenn fjölmennið og takið með ykkur gesti

Kv. Stjórnin

Lesa meira

Ráðgjafaviðtöl

Gunnhildur Axelsdóttir, fjölskylduráðgjafi, hefur aftur hafið störf eftir sumarfrí.

Allir sem eru félagsmenn hjá LAUFinu geta fengið ráðgjafarviðtöl fyrir sig og sína aðstandendur hjá Gunnhildi, sér að kostnaðarlausu.

Hafið samband við skrifstofu LAUF, lauf@vortex.is , eða beint við Gunnhildi, gunnhildur@vinun.is , til að bóka tíma.

ATH! til þess að fá viðtalið ókeypis er nauðsynlegt að vera félagsmaður hjá LAUF.

Lesa meira

Skólaganga

Skólaganga flestra flogaveikra barna er rétt eins og skólaganga annarra barna, þau bera engin sjáanleg merki um flogaveikina nema þegar þau fá flog. Námsgeta þeirra er jafn misjöfn og námsgeta annarra barna. Flog barna geta verið bundin við ákveðinn tíma sólahringsins eins og til dæmis á nóttunni eða snemma á morgnana sem virðist í fljótu bragði ekki hafa áhrif á skólagöngu þeirra. Að öllum líkindum eru þetta börnin sem skólinn veit oft ekki af. Svo er það hinn hópurinn um 20-30% barna með flogaveiki sem er verr settur og þarf að glíma við ýmsa fylgikvilla flogaveikinnar. Vanlíðan flogaveikra barna í skólum er ekki alltaf líkamleg heldur geta þau líka átt í tilfinningalegum erfiðleikum. Þau eru kvíðin við að fá flog í skólanum og sá kvíði getur einmitt orsakað flog. Sjálfsmynd og félagsleg staða þessara barna er oft veik. Þau eru oft fjarverandi í lengri og skemmri tíma frá skóla vegna sjúkrahúslegu. Það veldur barninu erfiðleikum við að mynda ný vinatengsl og viðhalda félagslegum tengslum.

Það sem greinir börn með flogaveiki frá öðrum börnum er að þau fá stundum flog og þurfa stundum að taka lyf til að halda einkennum hennar í skefjum. Aukaverkanir lyfja geta haft þau áhrif á barnið að það verði sljótt, syfjað, eirðarlaust og átt erfitt með einbeitingu. Eða það verður órólegt og sýnir ýmis merki um óeðlilega hegðun, getur t.d. tekið upp á því að klæða sig úr fötunum, hreyfingarnar verða klunnalegar og erfitt að samhæfa þær. Þessi börn hafa oft fengið það orð á sig að vera óþæg, áhugalaus og löt. Sama hefur verið sagt um þau börn sem fá störuflog og detta út, kannski oft sama daginn og missa þá stundum allt samhengi í því sem þau eru að fást við hverju sinni. Þessi börn þurfa því oft meiri og annars konar kennslu en almennt gerist. Börn sem oft eru frá skóla eða illa fyrir kölluð dragast ósjálfrátt meira aftur úr ef ekkert er að gert. Kemur þá til kasta sérkennsluúrræða.

Börn með flogaveiki á að meðhöndla eins og önnur börn. Þau eiga að taka þátt í öllu skólastarfi. Oft hafa greinar eins og leikfimi, sund, heimilisfræði, og smíðar verið taldar hættulegar börnum með flogaveiki og því hafa þau verið látin sleppa þeim. Þetta eru þær greinar sem börnum finnast oft skemmtilegastar. Börn með flogaveiki eiga rétt á að þeim sé skapað það öryggi í skólunum að þau geti tekið þátt í starfinu óhindruð. Það er best gert með því að kennarar og aðrir sem hafa með þau að gera séu meðvitaðir um þarfir þeirra. Mikilvægt er að upplýsa alla s.s kennara, vini, nágranna, ættingja o.fl. um eðli sjúkdómsins og hvernig hann birtist hjá viðkomandi barni því hann getur verið mjög mismunandi frá einum einstaklingi til annars. Allt sem stuðlar að þekkingu þeirra sem umgangast barnið er hjálp í þá átt að auka öryggiskennd þess. Að leyna sjúkdómnum getur gefið barninu þá tilfinningu að foreldrarnir skammist sín fyrir sjúkdóminn og þar með það sjálft, fyrir utan það að viðhalda fordómum gagnvart flogaveiki.

Nemandi með flogaveiki getur skapað meira álag á kennara og aðra nemendur en almennt gerist ef kennari er óupplýstur um eðli sjúkdómsins. Fyrir hefur komið að kennari hafi látið börn alveg afskiptalaus, ekki gert viðeigandi kröfur og látið þau komast upp með það sem önnur börn fengju skammir fyrir, af ótta við flogakast. Einnig að þeir hafi ekki vitað hvernig bregðast á við flogakasti.