Spurningar og svör

Grundvallaratriði varðandi skilning á eðli flogaveiki eru þekking á því sem gerist í heilanum við flog, hvers vegna sumir fá flog en aðrir ekki og loks hvað veldur því hvenær flog kvikna. Við sjúkdómsgreiningu vakna að vonum margar spurningar. Vonandi finnur þú á heimasíðu okkar svör við þínum spurningum.

Hér gefur að líta nokkrar algengar spurningar um flogaveiki. Veldu þér einhverja spurningu og skoðaðu svarið. Ef þú ert með spurningu sem þú vilt fá svar við er velkomið að hafa samband við okkur og við munum leitast við að svara þér eins og kostur er. Þú getur sent okkur bréf, tölvupóst á lauf@vortex.is, eða hringt á skrifstofuna.

Hvað er flogaveiki?

Flogaveiki er heiti yfir skyndilega tímabundna truflun í rafkerfi heilans sem hættir nánast alltaf af sjálfu sér. Þessi truflun hefur í för með sér margvísleg einkenni og þegar hún hefur tilhneigingu til þess að koma fyrir aftur er sagt að fólk sé með flogaveiki. Flogaveiki er einkenni um sjúkdóm eða starfstruflun í heilanum. Flog geta þannig verið fylgifiskur ýmissa heilasjúkdóma, tilkomin vegna höfuðáverka eða um meðfæddan veikleika getur verið að ræða. Sami einstaklingurinn getur haft fleiri en eina tegund floga.

Af hverju fá sumir flogaveiki?

Í meira en helmingi tilvika finnst engin orsök. Stundum eru ekki neinir undirliggjandi sjúkdómar né heilaskemmdir sem orsaka það að flog byrja. Þá er sagt að flogaveikin sé sjálfvakin, þ.e.a.s orsökin er óþekkt en tengist líklega erfðaþáttum. Stundum er hægt að finna einhverjar orsakir og geta þær tengst höfuðáverkum, heilablóðfalli, sýkingum í heila þ.e. heilahimnabólgu eða heilabólgum og meðfæddum galla í heila. Aðrar sjaldgæfari ástæður eru heilaæxli og erfðabundnar aðstæður. Hægt er að segja að allt sem skemmir eða særir heilann getur orsakað flogaveiki. Í þeim tilvikum á flogaveikin sér vefræna orsök sem tengist hinum undirliggjandi sjúkdómi þ.e.a.s. sjúkdómsvakin flogaveiki.

Erfist flogaveiki?

Í mörgum tilvikum er ekki þekkt fjölskyldusaga um flogaveiki. Samt sem áður virðist vera að ákveðnar tegundir flogaveiki séu algengari í sumum fjölskyldum. Í nýlegum rannsóknum hefur komið í ljós að hægt er að tengja sumar tegundir flogaveiki við ákveðin gen. Til dæmis er Juvenile Myoclonic flogaveiki tengd geni sem hefur tekist að staðsetja á litningi 6. En það er mögulegt að erfa þetta gen án þess að fá flogaveiki. Þannig að þrátt fyrir að genið erfist verður það ekki alltaf til þess að viðkomandi manneskja fái flogaveiki.

Er flogaveiki einhvertímann smitandi?

Nei, það er engin hætta á því að maður geti smitast af flogaveiki af annarri manneskju.

Hvað er flog?

Heilinn er megin stjórnstöð líkamans. Hann er saman settur af milljónum taugafruma eða heilafruma sem eiga í stöðugum samskiptum, senda boð eða taka við boðum sem gerir líkama okkar fært að starfa. Ef eðlileg starfsemi einhverra þessara heilafrumna raskast geta skilaboðin truflast þannig að þau verði misskilin á einhvern hátt sem orsakar einhverskonar flog. Gerð floganna fer eftir því hvar í heilanum eðlileg samskipti truflast. Það eru margar ólíkar gerðir floga til og er þeim vanalega skipt í tvo megin flokka; altæk flog og staðbundin flog. Áhrif þess að vera með flogaveiki eru einstaklingsbundin og háð mörgum þáttum, fyrir flesta hefur flogaveikin einungis áhrif á líf þeirra í stuttan tíma en fyrir aðra geta afleiðingar hennar verið langvinnar og erfiðar.

Hvað er krampaflog?

Krampaflog er stórt krampakennt flog. Flestum dettur þessi tegund floga í hug þegar minnst er á flogaveiki. Hér áður og fyrr var krampaflog kallað grand-mal sem er franska og þýðir meiri háttar sjúkdómur. Það sem gerist í krampaflogi er að skyndilega verður allur heilinn fyrir truflun, viðkomandi missir samstundis meðvitund og fellur til jarðar. Stundum getur heyrst hávært óp og stafar það af vöðvasamdrætti í lungum sem þrýstir loftinu út. Líkaminn stífnar í stutta stund og síðan fara kippir um líkamann. Öndun getur verið grunn og jafnvel stoppað í augnablik það gerir það að verkum að húðin verður stundum bláleit. Munnvatn getur vætlað úr munni og stundum tæmist þvagblaðra og ristill vegna vöðvasamdráttar. Kippirnir ganga yfirleitt yfir og flogið tekur enda innan nokkra mínútna. Á meðan viðkomandi er að komast til meðvitundar getur hann verið ruglaður og syfjaður en margir eru færir um að taka aftur upp þráðinn þar sem frá var horfið eftir að hafa hvílt sig smá stund.

Hvað er störuflog?

Þessi flog vara stutt, oft nokkrar sekúndur. Viðkomandi missir meðvitund án þess að detta. Starir fram fyrir sig, sjáöldur víkka. Síðan kemst hann til meðvitundar á ný og tekur þá gjarnan upp fyrri iðju eins og ekkert hafi í skorist.

Hvað eru staðbundin flog?

Þessi gerð floga er algengust, u.þ.b. 60% allrar flogaveiki á sér staðbundin upptök í vissum svæðum heilans. Stundum sést ör eða meinsemd í heilavefnum á sneiðmynd. Í öðrum tilvikum er sneiðmynd eðlileg en heilarit getur sýnt óeðlilegar bylgjur á ákveðnum svæðum heilans. Þessum gerðum floga er gjarnan skipt í þrennt:

Einföld staðbundin flog. Í þessum flogum tapast meðvitund ekki. Þau voru áður kölluð ára eða viðvörun. Áran getur endurspeglað uppruna floganna það er að segja ef truflun er fyrst á svæði sjónar koma fram sjóntruflanir, verði hún á svæði lyktar eða bragðskyns framkallast vont bragð eða lykt. Ef truflunin verður á svæði skynjunar eða hreyfistýringar ákveðins líkamshluta framkallast náladofi eða kippir í þeim hluta. Stundum er áran í fomi geðrænna breytinga s.s. gleði, reiði eða hræðslutilfinningar.

Fjölþætt staðbundin flog. Þessi tegund floga kallast ráðvilluflog. Meðvitund tapast að hluta eða alveg. Viðkomandi getur skynjað umhverfið að einhverju leyti og man stundum eitthvað úr köstunum en meðvitund er aldrei heil. Flogin geta byrjað sem ára en þróast síðan í ráðvilluflog. Einkennin eru margvísleg. Fólk sem fær þessi flog upplifir ýmislegt, það getur fengið sjón- og heyrnarofskynjanir, sumum líður líkt og í draumi, þeir geta fyllst óraunveruleikakennd, fundist þeir lyftast upp og jafnvel sjá sjálfa sig ofan frá. Þeir geta rekið upp hljóð, smjattað, fitlað við klæði sín og jafnvel afklæðst. Líkt og í transi geta þeir vaðið út á götu, gengið um langtímum saman án þess að vita af sér, gengið í hringi og framkvæmt ótrúlegustu hluti án þess að hafa hugmynd um það sjálfir. Minnið getur tapast á tímabilum bæði fyrir og eftir flogið.

Staðbundin flog sem verða altæk flog. Þessi flog geta byrjað sem einföld eða fjölþætt staðbundin flog en breiðast síðan út til alls heilans. Sé útbreiðslan mjög hröð koma ekki fram einkenni um áru eða ráðvilluflog. Einkenni geta verið mismunandi. Viðkomandi getur stífnað upp skyndilega og dottið án þess að fá kippi í útlimi eða þeir fá kippi í kjölfarið. Sumir missa skyndilega allan mátt úr líkamanum og detta niður. Oft verða meiðsl í slíkum köstum. Þeir geta hætt að anda við þessar aðstæður, blánað upp, misst þvag eða hægðir og bitið sig í tunguna.

Hvað er altækt flog?

Altæk flog frá upphafi eru allt að 40% allrar flogaveiki. Enginn fyrirboði er að flogunum því allur heilinn verður fyrir truflun í einu. Undantekningarlaust missir viðkomandi meðvitund. Krampaflog og störuflog eru dæmi um altæk flog.

Geta allir fengið flogaveiki?

Já, flogaveiki er ekki eitthvað sem sumir eru fæddir með. Flestir þeirra sem greinast með flogaveiki fá sitt fyrsta kast fyrir 20 ára aldur. Hinir upplifa sitt fyrsta kast síðar á ævinni.

Er óhætt að stunda kynlíf?

Já, það er engin sérstök hætta á því að fá flog vegna kynlífsathafna. Konur verða að athuga að sum lyf við flogaveiki hraða niðurbroti getnaðarvarnarpillunnar í lifrinni og því getur virkni hennar minnkað. Mikilvægt er að ræða þetta við lækni sinn til að koma megi í veg fyrir ótímabæra þungun.

Hvernig lýsir það sér að fá flogakast?

Flogaveiki er breið skilgreining á margvíslegum flogum. Þannig að flog og líðan í tengslum við þau getur verið mjög ólík. Algengar tilfinningar sem tengjast flogum fela í sér óöryggi, ótta, líkamlega og andlega þreytu, rugl og minnistap. Sumar tegundir floga geta framkallað sjón- og heyrnræn fyrirbæri meðan aðrar fela í sér skynjunarleysi. Ef meðvitundarleysi fylgir flogaköstunum fylgir einnig í flestum tilvikum tilfinningaleysi. Margt fólk upplifir einnig fyrirboða eða áru áður.

Er hægt að læknast?

Því miður er fullkomin lækning á flogaveiki ekki möguleg miðað við núverandi þekkingu nema í mjög fáum undantekninga tilvikum þar sem hægt hefur verið að fara í heilaskurðaðgerð. En það er mögulegt að hafa stjórn á henni hjá flestum með réttum lyfjum. Um það bil helmingur getur losnað við að taka lyfin eftir að hafa verið flogalaus í nokkur ár. Sumir þurfa að taka lyf alla ævi jafnvel þó viðkomandi fái aldrei flog.

Hvað eru ungbarnakippir?

Ungbarnakippir eru tiltölulega sjaldgæfir og hafa nær eingöngu áhrif á mjög ung börn. Einkenni þeirra eru að barnið gæti virst óttaslegið eða eins og það hafi verk. Það dregur fæturnar upp að maga eða kastar höfðinu fram og réttir hendurnar upp í loft. Skjót greining og meðferð gefa mesta möguleika á að fyrirbyggja greindarskerðingu sem stundum fylgir þessari sérstöku tegund flogaveiki.

Hvað orsakar flogaveiki?

Orsakir flogaveiki eru afar margvíslegar og hjá 40% einstaklinga með flogaveiki finnast engar. Þar sem ástæður finnast má flokka þær á eftirfarandi hátt:

  1. Erfðasjúkdómar s.s. tuberous sclerosis (hnúðarhersli), neurofibromatosis (tauga- og bandvefsæxli) og ýmsir aðrir sjúkdóma. Flogaþröskuldurinn tengist vafalítið erfðaþáttum en hver sem er getur fengið flog sé áreitið nógu sterkt menn eru aðeins misnæmir.
  2. Óeðlilegur heilaþroski: Margvíslegar truflanir á þróun heilans vegna vandamála tengdum fæðingu eða meðgöngu geta valdið flogaveiki.
  3. Skemmdir á heilavef; s.s. þær sem koma fram við æxlisvöxt eða þegar heilaæxli eru fjarlægð, höfuðáverka, heilablóðföll, heilablæðingar, sýkingar í heila og bólgusjúkdómar í heila. Slíkar skemmdir geta orsakað flogaveiki mörgum árum eftir að þær urðu til.
  4. Efnaskiptatruflanir í ungbörnum geta valdið sveiflum í blóðsamsetningu ýmissa efna. Einnig geta truflanir af völdum lyfja, lifrar- eða nýrnabilunar, vegna skorts á ákveðnum efnahvötum eða truflana í boðskiptakerfum taugafrumanna valdið flogum.
  5. Hrörnunarsjúkdómar s.s. Alzheimer sjúkdómur getur lýst sér m.a. í fækkun taugafruma í heila og flogum.
  6. Langvinnar sýkingar í heila, s.s. veirusýkingar sem valda hægfara heilaskemmdum og heilarýrnun. Má þar nefna Creutzfeld-Jakobs sjúkdóm og eyðni. Sníkilsýkingar í heila t.d. af völdum spóluorms og sulls getur líka orsakað flogaveiki.

Má fólk með flogaveiki keyra bíl?

Allir sem sækja um ökuskírteini þurfa að svara hvort þeir eru flogaveikir eða ekki. Ef umsækjandi er með flogaveiki byggist leyfisveitingin á læknisfræðilegu mati. Sjá akstur.

Hvað getur komið flogakasti af stað?

Það er mjög einstaklingsbundið hvað veldur flogaköstum. Þó er þekkt að þreyta og svefnleysi getur aukið hættu á flogakasti og stundum aukast flog kvenna í tengslum við hormónabreytingar í tíðahringnum. Margir geta tengt flog við ákveðin áreiti og í sjaldgæfum tilvikum þarf ákveðið áreiti til að framkalla flog, t.d. áreiti frá blikkandi ljósi eða tölvuskermi.

Eru lyfin skaðleg?

Flogaveikilyf eru gefin til að kom í veg fyrir flog. Því almennt er talið að flogveikin sjálf hafi skaðlegri áhrif en meðferðin. Það er langt síðan menn fóru að velta því fyrir sér hvort tíð köst lækki flogaþröskuldinn þannig að fólki fái enn tíðari köst. Þótt engin vissa sé fyrir þessu bendir ýmislegt til þess að svo geti verið. Erfitt er að greina hvort sljóleiki og sein hugsun sé af völdum stöðugra flogavirkni í heila, sem truflar heilastarfsemina án þess að valda kasti, eða vegna aukaverkana af lyfjameðferðinni. Sum flogaveikilyf geta haft áhrif á fósturþroska og því er konum með flogaveiki ráðlagt að skipuleggja barneignir sínar fyrirfram svo hægt sé að skipta um lyf þegar við á. Langflestar konur eignast heilbrigð börn þrátt fyrir stöðuga meðferð á meðgöngu.

Hvaða þýðingu hefur mæling á blóðþéttni lyfjanna?

Í fyrsta lagi gefa slíkar mælingar ákveðna hugmynd um það hvernig sjúklingur heldur lyfjameðferðina og þær geta gefið vísbendingar um skammtastærð. Í öðru lagi gefur mjög há blóðþéttni skýringar á eitureinkennum. Mælingarnar eru þó ekki algildur mælikvarði á áhrif lyfjanna. Sumir svara litlum lyfjaskömmtum en aðrir ekki. Sum lyfjanna hafa áhrif á blóðið og lifrastarfsemi, og þess vegna þarf að fá blóðprufu 1-2svar sinnum á ári til að fylgjast með og fyrirbyggja vandræði.