Skip to main content

Fræðsla og útgáfa

Markmið fræðslustarfs Laufs er að auka þekkingu á flogaveiki, en um er að ræða einkenni sem hafa ýmis konar áhrif á daglegt líf. Áhrif flogaveikinnar eru margvísleg, ekki einvörðungu líkamleg heldur einnig tilfinningaleg og félagsleg. Mikilvægast er að hafa sem besta og víðtækasta þekkingu og læra að nota þær leiðir sem færar eru til að auka lífsgæði fólks með flogaveiki. Lauf heldur fræðslufundi, gefur út tímarit og bæklinga og hefur líka látið þýða myndbönd. Einnig er hægt að fá fulltrúa frá samtökunum til að halda fræðsluerindi um flogaveiki og fyrstu hjálp.

Fræðslufundir

Á fundunum er almenn fræðsla um ýmis læknisfræðileg málefni og annað sem tengist því að lifa með flogaveiki. Fagaðilar og aðrir s.s. fólk með flogaveiki og aðstandendur flytja erindi og sitja fyrir svörum.

Útgáfa

Tímarit samtakanna , Laufblaðið, kemur út einu sinni á ári og allir félagsmenn eru sjálfkrafa áskrifendur, auk þess sem blaðið er sent til margvíslegra stofnana, á læknastofur og heilbrigðisstofnanir og fleiri staði. Tilgangur blaðsins er að auka framboð á aðgengilegu efni á íslensku um flogaveiki og aðstæður fólks með flogaveiki.Lauf hefur gefið út ýmsa bæklinga um flogaveiki, t.d. um flogaveiki hjá börnum, um flogaveiki hjá eldra fólki o.fl.. Einnig eru hjá félaginu fáanlegar DVD myndirnar Fræknar fiskifælur fyrir börn, og Flogaveiki út úr skugganum, og á heimasíðunni er beinn hlekkur á sjónvarpsmyndina “Líf með flogaveiki” .

Fræðslufyrirlestrar um flogaveiki

Fastur þáttur í starfsemi samtakanna er að fræða um flogaveiki og fyrstu viðbrögð. Þá er m.a. farið í skóla, á sambýli og vinnustaði með fræðsluerindi. Fræðslupakkinn sem er um 45 mínútna dagskrá inniheldur sýningu á myndbandsspólu um fyrstu hjálp, fræðsluerindi og umræður. Komið er m.a. inn á helstu viðbrögð við ólíkum tegundum floga, aukaverkanir lyfja, ofverndun, flogakveikjur og sálfélagsleg áhrif flogaveikinnar. Fordómar byggjast oftast á vanþekkingu og er fræðsla eina meðalið sem virkar á þá. Þeir sem óska eftir að fá fræðslu hvort heldur sem það eru einstaklingar, skólar, félagasamtök eða vinnustaðir eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við skrifstofu félagsins í s. 551-4570 eða netfang; lauf@vortex.is.