Hugleiðsla (núvitund), slökun og sjálfs dáleiðsla.

Fyrir fólk með langvarandi sjúkdóma skiptir miklu máli að tileinka sér þá færni að slaka á. Við það að slaka á, er líkami og hugur í vakandi varurð og við ráðum betur við daglegt líf okkar

Hugleiðsla(núvitund) og slökun er hægt að framkvæma á marga vegu. Á næstu vikum mun ég setja inn fjölbreyttar æfingar sem vonandi geta hentað sem flestum ykkar.

Sjálf nota ég hugleiðslu æfingar til að slaka á dags daglega. Þegar ég aftur á móti er að glíma við ýmiss konar áskoranir gríp ég í annars konar æfingar eins og skapandi hugsýnir eða sjálfs dáleiðslu. En ég er mjög hrifin af sjálfs dáleiðslu og vinn talsvert með dáleiðslu í starfi mínu.

Sjálfsdáleiðsla er áhrifarík aðferð til að vinna með sjálfan sig eins og styrkja sjálfsmynd sína, ná árangri og verða þannig betri útgáfa af sjálfum sér. Eins getur hún nýst vel til að losna við ýmiss konar ávana og fælni.

Hér kemur fyrsta æfingin sem er skapandi hugsýn.

HEILANDI LJÓS

Sittu, eða liggðu út af, eftir því hvað þér finnst betra. Byrjaðu á því að anda djúpt að þér og rólega frá þér, alveg upp í höfuð og út í alla líkamsparta. Þegar þú andar frá þér leyfðu þér að finna hvernig öll spenna fer úr líkamanum. Síðan skaltu anda eins og þér er eðlislægt og halda áfram að leyfa þér að slaka vel á. Segðu við sjálfa/sjálfan þig, þetta er minn tími og ég ætla að leyfa mér að slaka vel á.

Þegar þú finnur að þú ert byrjuð/byrjaður að slaka á, skaltu ímynda þér bjart, hlýtt, hvítt ljós við hjartastöðina (milli brjóstanna) sem stækkar við hverja útöndun og dreifir sér út um allan líkamann, þar til það nær yfir þig alla/n og út fyrir líkama þinn. Leyfðu þér að upplifa og finna hvernig þetta hvíta mikla ljós, umvefur þig hlýju og kærleika.

Leyfðu þér að anda rólega að þér og frá og finna þennan kærleika og hugsaðu um læknandi mátt ljóssins í líkama þínum og huga. Leyfðu ljósinu að flæða út fyrir þig og ná til umhverfis þíns og til þeirra sem eru í kringum þig og þér þykir vænt um.

Meðan þú ert umvafin/n ljósinu, skaltu kalla fram í huga þér þakklæti. Hugsa um það sem þú mátt vera þakklát/ur fyrir og sjáðu fyrir þér hvernig þú ert hluti af stærri heild og tengdur almættinu. Leyfðu þér að upplifa hvernig kærleikur og hugsun um þakklæti hjálpar þér að slaka á. Alltaf þegar þú slakar á ertu að opna fyrir læknandi mátt almættisins í líkama þínum.

Það að slaka á og gefa sér tíma að upplifa vellíðan getur haft mikið að segja um daglega vellíðan þína.

Leyfðu þér að slaka á og upplifa og finna fyrir þessum jákvæða krafti og segðu við sjálfa/n þig það sem þú vilt fyrir þig og endurtaktu það í huganum eins og t.d.

„Ég er opin/n fyrir læknandi kærleika almættisins og leyfi honum að streyma um mig og frá mér til umhverfisins“ „ Ég slaka á og tek á móti fegurð og kærleika“ „Ég veit að kærleikur og jafnvægi virkja skapandi eiginleika mína og hjálpa mér að njóta mín“. „Ég hleypi kærleika og gleði inn í líf mitt“.

Þegar þú ert tilbúin/n þakkar þú fyrir þessa upplifun og að vera partur af skapandi krafti almættisins og leyfðu þér að upplifa hvað það er gott að gefa eftir og leyfa sér að vera partur af svo miklu og að vera umvafin/n hinni miklu orku alheimsins sem fóstrar allt líf.

Gangi ykkur vel

Gunnhildur