Skip to main content

Æskulýðs- og fræðslusjóður LAUF

Æskulýðs- og fræðslusjóður LAUFs var stofnaður árið 2013 í kjölfar þess að útgáfufélagið Hrossarækt ehf.,lagði sjóðnum til veglegt stofnframlag sem safnaðist í gegnum árlegt góðgerðarverkefni þeirra. Hrossarækt ehf. hefur í tengslum við útgáfu sína á hinni árlegu Stóðhestabók svokölluðu haldið mikla Stóðhestasýningu þar sem happdrættismiðar eru seldir og allur ágóði rennur til góðgerðarmála. Fjöldi mismunandi verkefna hefur hlotið styrk og árið 2012 ákváðu forsvarsmenn Hrossaræktar að veita styrk til LAUFs sem nýta skyldi í æskulýðs- og fræðslustarf.

Fjöldi hrossaræktenda gaf folatolla undir stóðhesta sína, sem nýttir voru í happdrættið, auk þess sem einhverjir tollar voru boðnir upp á Stóðhestaveislunni það árið. Hestamenn tóku gríðarlega vel í verkefnið og voru duglegir að kaupa miða. Niðurstaðan varð rúmar 3 milljónir sem lagðar voru inn í sjóðinn við stofnun hans.

Í 3. grein samþykkta sjóðsins segir m.a. „Tilgangur sjóðsins er að styrkja og styðja við æskulýðsstarf í þágu barna og ungmenna með flogaveiki, og skal miðað við að verkefni sem til greina koma gagnist sem flestum börnum og ungmennum; svo og að styðja við kynningu og fræðslu til almennings um flogaveiki og lífið með flogaveiki“.

Í stjórn sjóðsins sitja nú:

Guðbrandur Stígur Ágústsson, Hulda G Geirsdóttir og Brynhildur Arthúrsdóttir

Rekstur sjóðsins er óháður fjárhag LAUFs og er hann rekinn á eigin kennitölu og með eigin samþykktir og stjórn.