Skip to main content

Hvað er flogaveiki?

Flogaveiki er íslenskt orð yfir epilepsy sem komið er úr grísku sögninni epilembanein og þýðir að grípa eða hremma.
Orðið flogaveiki er að mörgu leiti villandi þar sem um er að ræða margskonar einkenni frekar en afmarkaðan sjúkdóm.
Allir hafa meiri eða minni tilhneigingu til að svara ákveðnum áreitum með flogi en eru misnæmir.
Þegar fólk hefur tilhneigingu til að fá endurtekin flog er sagt að það sé flogaveikt.

Flogaveiki er líkamlegt ástand sem verður vegna skyndilegra breytinga á starfsemi heilans og kallast þessar breytingar flog.
Þegar heilafrumurnar starfa ekki rétt getur meðvitund einstaklingsins, hreyfingar hans eða gjörðir breyst um tíma.
Einkenni floga er því röskun á hreyfingu, skynjun, atferli, tilfinningu og eða meðvitund.
Flog eru oftast sjálfstýrð þ.e. kvikna og slokkna af sjálfu sér. Flogaveiki hrjáir fólk af öllum kynþáttum um allan heim
og getur byrjað hvenær sem er á mannsævinni.

Orðið flogaveiki er notað um þá einstaklinga sem einkennum er alveg haldið niðri hjá og sem verða ekki varir við neinar
óþægilegar aukaverkanir af lyfjameðferð og um þá sem fá flog öðru hverju. Einnig um fólk sem er með illviðráðanlega
flogaveiki sem fær tíð og alvarleg flog og býr jafnvel við fötlun. Flogaveiki er algengust meðal barna og eldra fólks.