Skip to main content

Aðalstjórn ÖBÍ mótmælir harðlega fyrirætlunum 9 lífeyrissjóða um skerðingu eða niðurfellingu örorkulífeyris á annað þúsund öryrkja. Í ljós hefur komið að margir í umræddum hópi voru með heildartekjur á bilinu 1.500.000 til 1.700.000 krónur á síðasta ári sem frá og með nóvember nk. eiga að skerðast um allt að fjörutíu þúsund krónur á mánuði. Ákvarðanir lífeyrissjóðanna munu hafa í för með sér kerfisbundna kjaraskerðingu fyrir tekjulægstu hópa samfélagsins. ÖBÍ telur aðför lífeyrissjóðanna að lífsafkomu öryrkja siðlausa og að hún fái ekki staðist lög og hefur því falið lögmanni að undirbúa málaferli á hendur þeim. Aðalstjórn ÖBÍ kallar ASÍ og Samtök atvinnulífsins til fullrar ábyrgðar á málinu enda stýri forsvarsmenn og fulltrúar þeirra samtaka jafnframt viðkomandi lífeyrissjóðum í sameiningu.

Reykjavík, 19. september 2007