Skip to main content

Rútan lagði af stað frá Hátúninu um kl. 10 laugadagsmorgun einn í ágústlok. Ferðinni var heitið að Indriðastöðum í Skorradal, í sumarferð Laufs, í boði Inger Helgadóttur bónda. Indriðastaðir eru ævintýrastaður þar sem boðið er upp á margs konar útivist og tómstundir.

Þegar komið var að Indriðastöðum biðu tveir starfsmenn eftir hópnum tilbúnir að aðstoða við hafa ofan af fyrir börnum og fullorðnum. Hægt var að fara í ökuferð undir styrkri stjórn þeirra félaga á fjórhjólum. Alls öryggis var gætt og sátu börnin með hjálm á höfði fyrir aftan þá félaga sem óku örugglega eftir ákveðinni leið. Til að geta ekið fjórhjólum þarf að hafa bílpróf og því var gott að hafa trausta bílstjóra. Spennan og gleðin var ósvikin þegar komið var til baka og margir fóru aftur og aftur í röðina til að komast á hjólin af því þetta var svo skemmtilegt. Síðan var hægt að fara í klifur á veggjum súrheysturns sem búið er að breyta í klifurvegg. Þar kepptist ungviðið við að fara sem hæðst og takmarkið var að ná að snerta þakbrún turnsins en lengra var ekki hægt að komast. Fyrir marga var þetta ný upplifun og tækifæri til að gera nýja hluti. Eftir allt þetta ævintýri var boðið til heljarinnar grillveislu. Ferðalangar tóku hraustlega til matar sem gestgjafar kepptust við að bera ofaní gestina. Eftir matinn fóru sumir að renna fyrir fisk í Skorradalsvatni, aðrir fóru í gönguferðir og einnig var hægt að bregða sér í berjamó.